Kæru foreldrar/forráðamenn,
Niðurstöður samræmdra prófa þetta skólaárið liggja fyrir. Nemendur okkar eru með hæstu meðaleinkunn í íslensku yfir allt landið, sjötta árið í röð. Í stærðfræði eru þeir líka með hæstu meðaleinkunn yfir landið allt. Þetta er glæsilegur árangur.
Samræmdum prófum er ætlað að veita nemendum, foreldrum/forráðamönnum og kennurum upplýsingar um stöðu nemenda í viðkomandi námsgreinum auk þess sem þeim er ætlað ákveðið hlutverk við mat á skólakerfinu. Niðurstöður samræmdra prófa byggja á því að meta stöðu hvers nemanda með samanburði við jafnaldra hans á landinu öllu. Niðurstöðurnar gefa því kost á að meta stöðu nemenda í öðru samhengi en námsmat innan skóla gerir.
Samræmdu prófin spegla á raunsannan hátt, það námsefni sem kennt er og þær námskröfur sem skólakerfið gerir til nemenda sinna.
Það er afar mikilvægt fyrir hvern skóla að skoða og meta sjálfan sig. Skipulagt sjálfsmat skóla eða innra mat skólans eins og það kallast er nú skylda samkvæmt grunnskólalögunum og er það vel því hverri stofnun er hollt að líta inná við og skoða hvað má betur fara og í hverju styrkleikar skólans felast. Fljótlega munum við kynna niðurstöður foreldrakönnunarinnar sem send var út í febrúar.
Hægt er að hlaða niður skýrsluna sem unnin var fyrir Námsmatsstofnun með því að [smella hér]
Til hamingju Ísaksskóli,
Sigríður Anna Guðjónsdóttir