Kæru vinir,
Mennta- og Menningarmálaráðuneytið hefur gefið frá sér eftirfarandi upplýsingar varðandi skólastarf á neyðarstigi Almannavarna:
–
Hér er leitast við að svara algengum spurningum um skólastarf á neyðarstigi almannavarna. Skólastarf er í fullum gangi en komi til samkomubanns á síðari stigum munu skólar vinna eftir uppfærðum áætlunum, enda er mikilvægt að skólastarf haldi áfram þótt aðstæður breytist.
Á ég að senda barnið mitt í skólann?
Ef nemandi er við góða heilsu er ekki ástæða til að halda barni heima þó neyðarstigi hafi verið lýst yfir. Skólar starfa nú þegar eftir uppfærðum viðbragðsáætlunum, sem hafa það að meginmarkmiði að hefta útbreiðslu veirunnar sem veldur Covid-19. Hins vegar er mikilvægt, að börn mæti ekki í skólann ef þau sýna einkenni sem svipar til einkenna kórónaveirusmits, s.s. hósta, hita, bein- og vöðvaverki eða þreytu.
Hvernig færi kennsla fram í samkomubanni?
Hver skóli skipuleggur skólastarfið með sínum hætti, þar sem tekið er mið af aðstæðum. Almennt er miðað við, að skólar veiti fjarkennslu þar sem hægt er að koma henni við, skipuleggi heimanám, dreifi verkefnum til nemenda með rafrænum hætti o.s.frv. Í sumum tilvikum eru skólar vanir að nota tæknilausnir sem standa öllum til boða – t.d. veflausnir sem eru án kostnaðar fyrir nemendur og foreldra. Nánari upplýsingar um kennslufyrirkomulag eru veittar í hverjum skóla fyrir sig.
Ríkisútvarpið gegnir mikilvægu hlutverki ef samkomubann verður sett á. RÚV mun sýna margvíslegt fræðsluefni, senda út efni sem tekið verður upp í sjónvarpskennslustofu og miðla kennsluefni á vefnum. Ríkisútvarpið mun vinna náið með ráðuneytinu, Menntamálastofnun og fleiri aðilum að gerð og útsendingu námsefnis.
Á ég að kenna barninu mínu ef samkomubann verður sett á?
Aldur barna og aðstæður ráða mestu um þátttöku foreldra, en hver skóli skipuleggur nám sinna nemenda og upplýsir forráðamenn um þeirra hlutverk. Ráðuneytið leggur áherslu á að samfélagið í heild taki höndum saman varðandi nám barna og ungmenna, og allir hlutaðeigandi sýni þann sveigjanleika sem er mögulegur til að styðja við heimanám og heimakennslu. Hægt er nálgast rafrænt námsefni og kennsluleiðbeiningar á vef Menntamálastofnunar auk þess sem Ríkisútvarpið mun sýna og deila margvíslegu fræðsluefni, komi til samkomubanns.
Hver skóli gefur upplýsingar á heimasíðu til foreldra og nemenda varðandi nám/kennslu/aðra starfsemi, auk tengla á þá sem geta aðstoðað.
Hvernig get ég stutt barnið mitt og viðhaldi áhuga þess á náminu meðan á þessu stendur?
Með því að fylgja fyrirmælum skóla eins vel og þér er frekast unnt, sýna sveigjanleika eftir aðstæðum og nýta allan lausan tíma á sem bestan hátt.
Mun barnið mitt geta útskrifast í vor?
Já. Skólastarf mun halda áfram, þótt kennsluaðferðir og námsmat geti að hluta orðið með öðrum hætti en ella væri. Aðstæður eiga því ekki að hafa áhrif annarlok og útskriftir. Hver skóli og fræðsluaðili útfærir framkvæmd náms, námsmats og námsloka og veitir nauðsynlegar upplýsingar.
Getur barnið mitt fengið einhverja frekari aðstoð eða kennslu umfram þá sem býðst í fjarnámi- og heimanámi?
Hver skóli á að birta á sinni heimasíðu upplýsingar um aðila sem nemendur og forráðamenn geta haft samband við varðandi nám eða andlega líðan.
Slóð á þessa færslu á heimasíðu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins má finna hér