Það er gaman að segja frá því að hún Isabella okkar í 7 EÁK stóð uppi sem sigurvegari í getraun á Vísindavöku Rannís þetta árið en Einkaleyfastofan stóð fyrir getrauninni og tóku samtals 297 einstaklingar þátt í henni.
Spurt var um fjölda bréfaklemma í glervasa sem komið hafði verið fyrir í sýningarbás Einkaleyfastofunnar. Fjöldinn var 1.987, en enginn þátttakandi var með rétt svar. Aftur á móti var Isabella ein af þeim sem komst því næst með ágiskun sinni 2.000 og vann hún fyrir vikið hádegisverð fyrir tvo á veitingastaðnum Vox.
Bréfaklemman á upphaf sitt í Bandaríkjunum á 19. öld. Fyrsta einkaleyfi á klemmu, sem aðeins var hugsuð fyrir pappír, er frá árinu 1877 og það átti Erlman J. Wright. Bréfaklemman breiddist fljótt út um heiminn og var komin í framleiðslu í Bretlandi fyrir 1900. Menn hafa reynt að breyta bréfaklemmunni og betrumbæta hana, en upphaflega lögunin hefur reynst vera bæði vinsælust og hagnýtust. Klemman grípur án þess að rífa og heldur án þess að flækja.
Við óskum henni Isabellu okkar hjartanlega til hamingju með frækinn sigur!