Það var sannkölluð hátíð í skólanum þegar 280 jólahúfukollar fylltu gangana á Jólasveinahúfudeginum. Börnin sungu af innlifun og gleði og 5 ára krakkarnir sungu sérstaklega fallega lagið um jólaköttinn úr ljóðum Jóhannesar úr Kötlum.
Varla er nokkurt skáld jafn samofið jólunum í hugum Íslendinga og Jóhannes úr Kötlum. Árið 1932 gaf hann út bókina „Jólin koma“ sem hefur lifað með þjóðinni í áratugi. Þar má finna ótal perlur, meðal annars „Bráðum koma blessuð jólin“ og kvæðin um Grýlu, jólasveinana og jólaköttinn.
Í skólanum var stemningin dásamleg. Starfsmenn fluttu jólasveinavísur Jóhannesar í leikrænum búningi eftir ávaxtastund og frímínútur. Þetta var í boði foreldrafélagsins til styrktar ferðasjóði starfsmanna. Börnin voru hreinlega í skýjunum, forvitin um hver leyndist bak við hvern svein, Grýlu, Leppalúða og jólaköttinn. Inga Hrönn, sögumaður dagsins, leiddi hópinn af tærri snilld og skapaði ógleymanlega stund.
Hluti starfsmannahópsins föndraði “jólakransapeysur” og skartaði þeim í allan dag og setti stemninguna á enn hærra plan. Takk öll fyrir daginn!
Njótið helgarinnar og aðventunnar kæru fjölskyldur.
Stafsfólk Ísaksskóla.





