Kæru foreldrar / forráðamenn,
Senn lýkur sumarleyfum nemenda. Starfsfólk Ísaksskóla hlakkar til að hitta þá aftur sem og nýja nemendur við skólann. Við bjóðum ykkur öll hjartanlega velkomin til samstarfs á nýju skólaári.
Áður en skólinn hefst viljum við benda á nokkur atriði sem gott er að hafa í huga við skólabyrjun.
Mánudaginn 24. ágúst er fyrsti skóladagur hjá 6, 7, 8 og 9 ára nemendum. Skóladagurinn hefst kl. 8:30 og honum lýkur kl. 14:10 að venju. Sunnuhlíð (frístundarstarf 6-9 ára nemenda) tekur til starfa strax fyrsta skóladaginn. Hún er opin til kl. 17:15 alla daga nema til kl. 16:15 á föstudögum. 6-9 ára nemendur geta komið í Sólbrekku kl. 7:30-8:30 alla morgna óski foreldrar/forráðamenn eftir því.
Fimm ára börn verða boðuð sérstaklega í skólann til að hitta kennarann sinn áður en skólinn hefst. Fyrsti skóladagur þeirra er mánudagurinn 31. ágúst. Skóladagurinn hefst kl. 8:30 og lýkur kl. 13:25. Þá tekur Sólbrekka við.
Sólbrekka (frístundastarf barna í 5 ára bekk) tekur til starfa á sama tíma og fimm ára börnin koma í skólann. Þar eru börnin fyrir og/eða eftir skóla allt eftir óskum foreldra. Sólbrekka opnar kl. 7:30 á morgnana og er opin til kl. 17:15 alla daga nema til kl. 16:15 á föstudögum. Við viljum þó benda foreldrum/forráðamönnum á að fara rólega af stað með viðveru í Sólbrekku, því það er mikið álag á börnin að byrja í skóla og annarri viðveru á sama tíma.
Kynningarfundir fyrir foreldra/forráðamenn verða haldnir:
Fimmtudaginn 27. ágúst kl. 17:30 fyrir foreldra/forráðamenn fimm ára barna.
Miðvikudaginn 2. september kl. 17:30 fyrir foreldra/forráðamenn 6, 7, 8 og 9 ára nemenda.
Við vonumst til að sjá sem flesta á kynningarfundunum.
Eins og ávallt fá nemendur öll gögn í skólanum, bækur og ritföng. Þeir þurfa einungis að hafa meðferðis skólatösku, teygjumöppu og tátiljur fyrir leikfimi (fást í Ástund í Austurveri og Útilífi).
Hádegismatur og ávaxtastund
Ávaxtastund er daglega rétt fyrir kl. 10:00. Nemendur koma með ávöxt eða grænmeti að heiman. Maturinn í hádeginu kemur áfram frá Móður náttúru. Hann er valfrjáls og verðið verður 690,- kr. pr. máltíð. Móðir náttúra kappkostar að vera ávallt með hollan og bragðgóðan mat. Þeir nemendur sem eru í frístundinni koma með hollt og gott eftirmiðdagsnesti.
Fyrsta máltíðin hjá 6-9 ára verður mánudaginn 31. ágúst daginn sem 5 ára börnin koma í skólann.
Allir foreldrar/forráðamenn fá skólasamning til útfyllingar. Foreldrar/forráðamenn 5 ára barna fá samninginn í viðtali við kennara áður en skólinn hefst. Skólasamningur 6-9 ára nemenda verður settur í skólatöskuna fyrsta skóladaginn. Mikilvægt er að skólasamningurinn berist strax daginn eftir til Láru á skrifstofunni og að hann sé undirritaður af báðum foreldrum/forráðamönnum.
Í fyrsta sinn í mörg ár verður hækkun á skólagjöldum 6-9 ára nemenda og 5 ára barna úr nágrannasveitarfélögunum. Skólagjöld 6-9 ára hækka úr 190.000,- kr. í 200.000,- kr. á ári. Skólagjöld 5 ára barna úr nágrannasveitarfélögunum hækka úr 180.000,- kr. í 190.000,- kr. á ári. Kostnaðurinn vegna frístundarinnar hækkar einnig um 5%.
Gjaldskrá 5 ára barna úr Reykjavík breytist þar sem skólinn er búinn að gera þjónustusamning við borgina. Hún verður kynnt fljótlega.
Ef einhverjar spurningar vakna hjá ykkur bendum við ykkur á að hafa samband við skólann í síma 553-2590 eða skoða síðuna okkar hér. Einnig má hringja í mig beint.
Með skólakveðjum,
Sigríður Anna – skólastjóri – 898-4019