Hér ríkir þorrastemning í morgunsárið og lyktin af þorrasmakkinu leggur um allt hús. Börnin eru búin að syngja minni karla og minni kvenna í bekkjarhópunum sínum í söng á sal og framundan er helgin með öll sín fyrirheit um að fá að sofa út og slaka á.
Sögnin að þreyja merkir ‘þrauka, bíða e-s með eftirvæntingu’ og er skyld sögninni að þrá. Þorrinn er fjórði mánuður vetrar og hefst á föstudegi á bilinu 19. til 25. janúar. Þegar þorra lýkur tekur góan við en hún hefst á sunnudegi á bilinu 18. til 24. febrúar. Þetta eru venjulega köldustu og erfiðustu mánuðir ársins.
Áður fyrr, þegar fólk bjó ekki jafn vel og nú, kalt var í húsum og matur og hey oft af skornum skammti, gátu þorrinn og góan reynst mörgum erfiðir mánuðir. Þá þurftu menn að þreyja þorrann og góuna en eftir það fór daginn að lengja verulega og styttast tók í sumarið. Síðar er farið að nota orðasambandið í yfirfærðri merkingu um að ‘þola tímabundna erfiðleika’.
Á myndinni eru þær Björg Þórsdóttir tónmenntakennari og kórstjóri og Mist Sigurbjörnsdóttir nemandi í 9 ára ÞEK
Gleðilegan bóndadag!
starfsfólk Ísaksskóla