Í tilefni af Degi Íslenskrar Tungu í dag 16. nóvember, fengum við í þau Rán Flygenring og Hjörleif Hjartarson í hugljúfa heimsókn í Ísaksskóla.
Sýningin er á vegum Höfundamiðstöðvar RSÍ (Rithöfundasamband Íslands) sem býður grunnskólum á hverju ári upp á bókmenntadagskrár undir nafninu Skáld í skólum þar sem höfundar heimsækja skóla til að fjalla um bókmenntir af ýmsu tagi.
Dagskrárnar eru metnaðarfullar, skemmtilegar og fræðandi. Höfundar koma tala um sögur, bækur, lestur, sköpun og skrif, ævintýri sögupersóna jafnt sem skapara þeirra – með það að markmiði að smita nemendur af ólæknandi lestrar- og sköpunargleði.
Skáld í skólum er á sínu 18. starfsári. Dagskrárnar hafa fyrir löngu sannað sig sem ómissandi þáttur í kynningu nútímabókmennta í grunnskólum landsins, en tæplega 80 mismunandi dagskár hafa orðið til innan vébanda verkefnisins frá því það hóf fyrst göngu sína árið 2006.
Um sýningurna:
Fuglar, flugur, hestar og álfar! Náttúran er full af sögum. Þær spretta í haganum eins og blóm. Kúnstin er að sjá þær og tjá þær með eigin hætti. Hægt er að teikna þær, syngja þær, skrifa þær eða segja þær eins og andinn blæs manni í brjóst þann daginn. Rán Flygenring og Hjörleifur Hjartarson eru ekki við eina fjölina felld í sköpun sinni. Með myndum, tali og tónum segja þau frá því hvernig sögur kvikna og bækur spretta og hvernig lítil fluga í hrossaskítshaug getur opnað gáttir inn í fjölskrúðugan heim sagnanna.
Hjörleifur Hjartarson er rithöfundur, tónlistarmaður og kennari. Hann hefur skrifað bækur fyrir börn og fullorðna, bæði í bundnu og óbundnu máli. Má þar nefna bækurnar Fuglar, Hestar og Sagan um Skarphéðin Dungal sem setti fram nýjar kenningar um eðli alheimsins. Einnig á hann að baki nokkur revíuskotin leikrit sem hann hefur sviðsett með tveggja manna hljómsveit sinni Hundur í óskilum.
Rán Flygenring er starfandi mynd- og rithöfundur. Hún hefur teiknað allt á milli himins og jarðar. Verk hennar eiga það öll sameiginlegt að nota myndmál til að segja frá á hnitmiðaðan og aðgengilegan hátt. Rán hefur myndlýst fjölda bóka, snarteiknað brúðkaup og ráðstefnur, málað veggverk, frímerki og bjórbauka, og tekið þátt í ýmsum sýningum og vinnustofum. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín.