Að byrja í Ísaksskóla
Kæru nýnemar, foreldrar og forráðamenn
Við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin í Skóla Ísaks Jónssonar. Á þessari síðu er að finna allar helstu upplýsingar er varða skólabyrjun í Ísaksskóla.
Í upphafi skólaárs eru fimm ára börn og nýir 6-9 ára nemendur boðuð sérstaklega í skólann til að hitta kennarann sinn áður en skólinn hefst. Umsjónarkennarar boða nemendur og foreldra/forráðamenn í viðtal símleiðis um miðjan ágúst. Ef barnið byrjar á miðjum vetri er ávalt boðað í viðtal hjá umsjónarkennara og stutta skólaheimsókn áður en formleg skólaganga barnsins hefst.
Allir foreldrar/forráðamenn þurfa að fylla út skólasamning áður en skólaganga hefst.
Fyrsti skóladagur hjá 5 ára börnum.
Skóladagurinn hefst kl. 8:30 og við lokum kl. 17:00 alla daga nema kl. 16:15 á föstudögum. Sólbrekka opnar kl. 7:30 á morgnana fyrir þá foreldra/forráðamen sem óska eftir því að börnin komi fyrr. Við viljum þó benda á að gott er að fara rólega af stað með viðveru. Það er mikið álag á börnin að byrja í skóla og annarri viðveru á sama tíma.
Fyrsti skóladagur hjá 6, 7, 8 og 9 ára nemendum.
Skóladagurinn hefst kl. 8:30 og lýkur kl. 14:00. Sunnuhlíð (frístundarstarf 6-9 ára nemenda) tekur til starfa strax fyrsta skóladaginn. Hún er opin til kl. 17:00 alla daga, nema til kl. 16:15 á föstudögum. 6-9 ára nemendur geta komið í Sólbrekku (morgunfrístund og leikskóladeild) kl. 7:30-8:30 alla morgna óski foreldrar/forráðamenn eftir því. Morgunfrístundin er ekki boði fyrsta skóladag ársins, en eftir það er hún á sínum stað.
Frístundaheimili Ísaksskóla
Frístundaheimili Ísaksskóla heitir Sunnuhlíð. Starfsfólk frístundaheimilis leiðbeinir og aðstoðar börnin í leik og starfi utan kennslustunda. Lögð er áhersla á að hvetja börnin til leikprýði og samvinnu. Í frístund eru einnig haldnar söngstundir og ýmislegt sem virkjar börnin til leiks í því sem þau hafa lært í skólanum. Nánari upplýsingar um Frístundaheimili skólans má finna hér, sem og starfsáætlun frístundar með því að smella hér. Vistunartími í frístund er skráður í skólasamning við upphaf skólagöngu. Eftir það má breyta vistunartíma hér.
Námskynningar
eru haldnar fyrir foreldra/forráðamenn að hausti. Þar kynnir skólastjóri m.a starfsfólk skólans og fer yfir ýmis hagnýt atriði varðandi skólagöngu barnanna. Foreldrar fylgja síðan umsjónarkennurum í sínar stofur þar sem farið verður yfir skólastarfið framundan. Ekki er ætlast til þess að börnin mæti á þessar kynningar.
Stundatöflur og bekkjarlistar
Tómstundaframboð
Tómstundaframboð er kynnt fljótlega eftir skólabyrjun og er það gert með tölvupósti til forráðamanna, og birt á vefnum hér. Tómstundastarf fer alla jafna af stað upp úr miðjum september
Ávaxtastund er daglega rétt fyrir kl. 10:00.
Nemendur koma með ávöxt eða grænmeti að heiman.
Maturinn í hádeginu er frá Krúsku.
Fyrsta máltíðin er strax fyrsta daginn í upphafi skólaárs. Krúska kappkostar að vera ávallt með hollan og bragðgóðan mat. Þeir nemendur sem eru í frístundinni koma með hollt og gott eftirmiðdagsnesti en 5 ára fá nónhressingu í skólanum. Mataráskrift er skráð í skólasamning við upphaf skólagöngu. Eftir það má breyta henni hér
Nemendur fá öll gögn í skólanum, bækur og ritföng
Þeir þurfa einungis að hafa meðferðis (skóla)tösku sem rúmar A4 möppustærð, tátiljur fyrir leikfimi (fást í Ástund í Austurveri) og vatnsbrúsa. Allir nemendur fá síðan plastvasa með rennilás fyrir námsgögnin.
Móttaka nemenda sem þurfa sérstakan stuðning.
Í umsókn um skólavist ber foreldrum að tilgreina ef barn hefur farið í greiningu, leikskóli mælt með greiningu eða barnið fengið sérstakan stuðning í leikskóla. Upplýsingarnar eru nauðsynlegar fyrir skólastarfið og velferð barnsins. Meðferð persónuupplýsinga eru á hendi skólastjóra og er gætt fyllsta trúnaðar við meðferð þeirra. Við upphaf skólagöngu eru foreldrar upplýstir um heildarskipulag, stefnu skólans og áætlun um skipulag stuðnings við nemendur. Lögð er áhersla á að nemandi komi í heimsókn og skoði skólaumhverfið.
Fagstjóri sérkennslu skólans er Fanney Hanna Valgarðsdóttir: fanney@isaksskoli.is
Sumarskóli Ísaksskóla
Sumarskóli Ísaksskóla er starfsræktur á sumrin. Hann fellur inn í 11 mánaða starf 5 ára deildar, en að auki gefst þá nemendum 6 ára bekkjum tækifæri að sækja Sumarskólann í um 6 vikur yfir sumartímann. Sumarskólinn hefst í byrjun júní, skömmu eftir skólaslit og stendur fram í lok júlí. Nánari upplýsingar um sumarskólann má finna hér.
Ef einhverjar spurningar vakna bendum við ykkur á að hafa samband við skólann í síma 553-2590 – Velkomin í Ísaksskóla!
Helstu upplýsingar
Bæklingur
Bæklingur sem ber nafnið „Velkomin í Ísaksskóla“ er ætlaður foreldrum og forráðamönnum barna skólans. Hann inniheldur samantekt á öllum helstu upplýsingum um skólastarfið sem gott er að hafa við höndina.

Það er ávalt velkomið að hafa samband við okkur í síma 553 2590, í gegnum netfangið lara@isaksskoli.is eða hér á vefnum okkar www.isaksskoli.is
Hljóðvarp
Sigríður Anna skólastjóri Ísaksskóla var gestur hjá Sirrý á Sunnudagsmorgni þann 19. janúar 2014.
Lestur á gömlum grunni
Viðtal sem birtist í Morgunblaðinu við Sigríði Önnu Guðjónsdóttur skólastjóra, um íslensku- og lestarkennslu í Ísaksskóla.