Kæru foreldrar/forráðamenn,
Á föstudagsmorgun að loknum söng á sal munum við, ef veður leyfir, fara út með börnunum til þess að fylgjast með sólmyrkvanum. Allir sem vilja slást í hópinn með okkur eru velkomnir. Ég gerði tilraun til að kaupa hlífðargleraugu til að bjóða uppá en því miður voru þau uppseld. Börnin fá þó öll sín hlífðargleraugu.
Ég læt upplýsingar um sólmyrkvann fylgja með til gamans og undirbúnings:
Föstudagsmorguninn 20. mars næstkomandi verður mesti sólmyrkvi sem sést hefur frá Íslandi í 61 ár. Þetta er sjaldgæft sjónarspil sem nær hámarki um kl. 9:40.
Hvernig er unnt að fylgjast með?
Til að fylgjast með myrkvanum er nauðsynlegt að nota viðeigandi hlífðarbúnað, t.d. sólmyrkvagleraugun sem hafa borist nú þegar. Sólin er lágt á lofti þennan morgun svo gæta þarf þess að hvorki fjöll né byggingar skyggi á hana þegar myrkvinn stendur yfir.
Að horfa á sólina án viðeigandi hlífðarbúnaðar getur valdið varanlegum augnskaða og blindu í verstu tilvikum. Venjuleg sólgleraugu og 3D gleraugu duga ekki til. Athugið þó að það er ekkert hættulegra að horfa á sólina við sólmyrkva en aðra sólríka daga. Engin ástæða er til að halda á lofti einhverjum hræðsluáróðri, aðeins að fólk fari gætilega eins og aðra daga.
Hvað ef það verður skýjað?
Myrkvinn stendur yfir í um tvær klst. Til að eitthvað sjáist þarf ekki fullkomlega heiðskírt veður. Eina sem þarf er að sólin láti sjá sig eitthvað, jafnvel í gegnum skýin. Því er gott að reyna að fylgjast vel á meðan á sólmyrkvanum stendur og nýta allar glætur sem kunna að koma. Við mælum eindregið með því að farið verði með nemendur út, allavega á meðan hámarkið verður um kl. 9:40. Ef svo illa fer að einhvers staðar sjáist alls ekki neitt er unnið að því að sólmyrkvinn verði í beinni vefútsendingu á Stjörnufræðivefnum, www.stjornufraedi.is eða öðrum íslenskum vefmiðli.
Nánari upplýsingar:
Allar upplýsingar um sólmyrkvann má finna á Stjörnufræðivefnum www.stjornufraedi.is.
Með sól í sinni,
Sigríður Anna Guðjónsdóttir