Kæru foreldrar/forráðamenn.
Mikið er gott að geta sagt að takmörkuðu skólastafi sé hér með lokið. Þessi tími hefur verið öðruvísi svo ekki sé meira sagt og þótt ótrúlegt sé hefur hann líka verið svolítið notalegur og rólegur. Við erum öll sem eitt tilbúin að sameinast aftur og hlökkum mikið til að hitta alla eftir helgi.
Frá og með mánudeginum 4. maí nk. verður skólastarf með eðlilegum hætti. Við tökum upp þráðinn þar sem frá var horfið fyrir takmörkun að öllu leyti hjá nemendum. Sundið verður líka á sínum stað og morgungæslan. Íþróttakennslan hjá Matta krull og Jóa verður að mestu utandyra þar sem hvatt er sérstaklega til þess af skólayfirvöldum. Þau börn sem ekki eru í morgungæslu fara í raðirnar sínar og verða klár í daginn kl. 8:30 þegar hringt verður inn.
Við starfsfólkið þurfum áfram að virða tveggja metra regluna og hámarksfjölda í rými og komum til með að skipuleggja matar- og kaffitímana okkar og alla samveru út frá því. Eins þarf að takmarka allar heimsóknir í skólann á skólatíma eins og við höfum verið að gera síðan skólastarf skertist sem því miður þýðir að þið verðið áfram að styðja okkur í því að koma ekki inn í skólann nema brýna nauðsyn beri til.
Sömu reglur gilda um frístundina og skólann þegar kemur að takmörkun inn í skólann. Þegar börnin verða sótt eru miklar líkur á að þau verði úti og þá sækið þið þau á skólalóðina. Ef skólatöskur og fatnaður er inni fara börnin sjálf inn að sækja það. Ef börnin eru inni þarf að hringja í Sólbrekku fyrir 5 ára börnin (sími 779 3075) og Sunnuhlíð fyrir 6-9 ára nemendur (sími 898 0788). Starfsmenn munu þá aðstoða barnið við að sækja dótið sitt og koma því til ykkar. Fimm ára inngangurinn verður eingöngu notaður fyrir 5 ára börnin og aðalinngangur fyrir 6-9 ára. Við setjum símanúmerin við inngangana svo þið náið örugglega í okkur.
Starfsfólk og börn með kvef- eða flensueinkenni koma ekki í skóla- eða frístundastarf og leita eins og áður til heilsugæslunnar og/eða hringja í 1700. Áfram verða aukin þrif í skólanum, sótthreinsun, aukinn handþvottur og sprittun.
Ef brýnar ástæður eru til geta foreldrar sótt um leyfi fyrir börn sín frá skólasókn. Slíkar beiðnir skulu vera skriflegar og þar staðfesta foreldrar að þeir beri fulla ábyrgð á námi nemenda á meðan leyfi varir. Leyfisbeiðnir eru lagðar fram í nemendaverndarráði. Ef leyfi er samþykkt hefur umsjónarkennari samband við nemanda og foreldra 2-3 sinnum í viku til að fylgjast með líðan og framgangi náms.
Ég vil að lokum þakka ykkur kæru foreldrar/forráðamenn fyrir einstaklega gott samstarf meðan á þessum takmörkunum hefur staðið. Við getum verið stolt af því hvernig við í sameiningu höfum tekist á við þetta verkefni.
Njótið helgarinnar,
Sigríður Anna