Kæru foreldrar/forráðamenn
Nú er mikilvægt að við tökum höndum saman og losum um umferðarhnútinn sem myndast hjá skólanum á morgnana. Það er mikilvægt að við notum rampinn sem er fyrir framan aðaldyr skólans aðeins til að hleypa börnunum okkar út. Þar á hvorki að leggja né stoppa til að bíða með börnunum í bílnum. Ég bið ykkur vinsamlega að leggja í stæði á öðrum stöðum og ganga með börnunum ykkar stuttan spöl ef þið viljið fylgja þeim að skólalóðinni. Ýmsir möguleikar eru til að leggja bílum í nágrenni við skólann eins og við Menntavísindasvið (Kennaraháskólann), kirkju Óháðasafnaðarins, í lögleg stæði í nærliggjandi götum og sunnan við Miklubraut (þá er farið yfir á gönguljósunum). Næstu morgna munu Matti mjúki eða Þröstur þrjúþúsund standa við rampinn til að minna okkur öll á þetta.
Hér fyrir neðan má sjá afstöðumynd af skólanum og nágrenni og ökuleiðum að skólanum. Þyngstu teppurnar myndast ef ekið er niður Stakkahlíðina og þar tekin u-beygja inn í rampinn. Allir sem koma þá leið ættu að velja Lönguhlíðina til suðurs og beygja síðan inn Skaftahlíðina og koma þar inn í rampinn. Umferð frá Miklubraut þarf að hleypa bílum sem koma Skaftahlíðina inn í röðina. Þegar búið er að hleypa börnunum út þarf að aka áfram í átt að gamla Sjómannaskólanum til þess að láta umferðina renna ljúflega (ekki taka u-beygju úr rampinum). Sama á við um þá sem velja að fara inn Bólstaðarhlíðina og leggja þar til að fylgja börnunum inn á skólalóðina, að taka hægri beygju á leiðinni út í umferðina aftur í Stakkahlíðinni (í átt að gamla Sjómannaskólanum).
Þetta verður skemmtilegt og áhugavert verkefni fyrir okkur öll og við leysum það saman.
Fyrir hönd foreldrafélagsins og starfsmanna,
Sigríður Anna