Nú þegar skólastarfið er komið á fullt skrið hjá okkur er nauðsynlegt að minna á umferðarreglur og aðgát í umferðinni í nágrenni við skólann.
Nágrannar okkar höfðu samband við mig á föstudag og höfðu áhyggjur af umferðaröngþveiti og of hröðum akstri fyrir utan skólann. Þeir sendu líka fjölda mynda af bílum sem lagt var ólöglega uppi á gangstéttum og við gangbrautir og hindruðu þannig gönguleið barna á leið í Háteigsskóla.
Við viljum því minna ykkur á að draga úr hraðanum og leggja ekki bílunum upp á gangstéttir, hraðahindranir eða inn á lóðir nágranna okkar. Hægt að leggja upp við HÍ (Kennaraháskólann) og rölta hingað í rólegheitunum ef allt um þrýtur.
Ég treysti á ykkur kæru foreldrar/forráðamenn að hjálpa okkur að ráða bót á þessu. Við verðum að tryggja öryggi barnanna í skólanum sem og barnanna í hverfinu auk þess sem við viljum fyrir alla muni eiga vinsamleg samskipti við nágranna okkar.
Mínar bestu kveðjur,
Sigríður Anna Guðjónsdóttir