Kæru foreldrar/forráðamenn
Veðurblíðan í vikunni er töfrum líkust og vonandi eru allir að njóta síðustu frídaganna fyrir skólabyrjun. Starfsfólk Ísaksskóla hlakkar til að hitta alla nemendur aftur sem og nýja nemendur við skólann. Við bjóðum ykkur öll hjartanlega velkomin til samstarfs á nýju skólaári.
Áður en skólinn hefst viljum við benda á nokkur atriði sem gott er að hafa í huga við skólabyrjun.
Mánudagurinn 24. ágúst er fyrsti skóladagur hjá 6, 7, 8 og 9 ára nemendum. Skóladagurinn hefst kl. 8:30 og lýkur kl. 14:10 að venju. Sunnuhlíð (frístundarstarf 6-9 ára nemenda) tekur til starfa strax fyrsta skóladaginn. Hún er opin til kl. 17:15 alla daga, nema til kl. 16:15 á föstudögum. 6-9 ára nemendur geta komið í Sólbrekku (morgunfrístund og leikskóladeild) kl. 7:30-8:30 alla morgna óski foreldrar/forráðamenn eftir því. Morgunfrístundin verður þó ekki fyrsta morguninn, þann 24. ágúst en eftir það verður hún á sínum stað. Tómstundaframboð verður kynnt fljótlega eftir skólabyrjun og fer af stað upp úr miðjum september.
Fimm ára börn verða boðuð sérstaklega í skólann og nýir 6-9 ára nemendur til að hitta kennarann sinn áður en skólinn hefst. Umsjónarkennarar munu hringja nú í vikunni og boða nemendur og foreldra/forráðamenn í viðtal.
Fyrsti skóladagur 5 ára er fimmtudagurinn 27. ágúst. Skóladagurinn hefst kl. 8:30 og við lokum kl. 17:15 alla daga nema kl. 16:15 á föstudögum. Sólbrekka opnar kl. 7:30 á morgnana fyrir þá foreldra/forráðamen sem óska eftir því að börnin komi fyrr. Við viljum þó benda á að gott er að fara rólega af stað með viðveru. Það er mikið álag á börnin að byrja í skóla og annarri viðveru á sama tíma.
Vegna Covid stefnir allt í það að foreldrar/forráðamenn megi ekki koma inn í skólahúsnæðið nema til að sækja börnin í lok frístundar. Þau börn sem eru sótt frá kl. 14:10-15:00 verða í útiveru á skólalóð. Þetta er því miður nauðsynlegt og við stöndum öll saman í þessum mikilvægu aðgerðum. Reynslan frá því vor hjálpar okkur öllum að aðlagast fljótt og vel. Kynningarfundir fyrir foreldra/forráðamenn verða ekki mögulegir en við munum senda ykkur þá punkta sem okkur þykir mikilvægt að koma til skila þegar að skólastarfið er komið í gang.
Eins og alltaf fá nemendur öll gögn í skólanum, bækur og ritföng. Þeir þurfa einungis að hafa meðferðis (skóla)tösku sem rúmar A4 möppustærð, tátiljur fyrir leikfimi (fást í Ástund í Austurveri) og vatnsbrúsa. Allir nemendur fá síðan plastvasa með rennilás fyrir námsgögnin.
Ávaxtastund er daglega rétt fyrir kl. 10:00. Nemendur koma með ávöxt eða grænmeti að heiman. Maturinn í hádeginu er frá Krúsku. Fyrsta máltíðin verður strax fyrsta daginn. Krúska kappkostar að vera ávallt með hollan og bragðgóðan mat. Þeir nemendur sem eru í frístundinni koma með hollt og gott eftirmiðdagsnesti en 5 ára fá nónhressingu í skólanum (vegna Covid verða 5 ára börnin þó að koma með nónhressinguna að heiman fyrstu um sinn).
Allir foreldrar/forráðamenn þurfa að fylla út skólasamning og kemur sérstakur póstur frá Láru á skrifstofunni.
Ef einhverjar spurningar vakna bendum við ykkur á að hafa samband við skólann í síma 553-2590 eða kíkja inn á heimasíðuna, www.isaksskoli.is.
Gleðilegt nýtt skólaár,
starfsfólk Ísaksskóla