Skóli Ísaks Jónssonar er sannarlega menntastofnun sem á sér fáar líkar. Skólinn hlúir að börnum jafnt á grundvelli vináttu og menntunar en með þau einkennisorð í farteskinu hóf Ísak Jónsson vegferð skólans fyrir 89 árum síðan. Hugdjarfar kennsluaðferðir, byggðar á vináttu, alúð og samkennd einkenndu skólastarfið og gera enn.
Til að styðja enn frekar við skólann og hans mikilvæga starf, í anda þeirrar vináttu og samkenndar sem skólinn er þekktur fyrir, hafa nú verið stofnuð vinasamtök Ísaksskóla. Vinasamtökin – Vinir Ísaksskóla er fólk á öllum aldri sem gekk í skólann, átti barn eða börn í skólanum eða vann við skólann eða tengdist honum og vill leggja skólanum og þeim málefnum sem samtökin vinna að lið. Fyrirtækjum, félögum og stofnunum er einnig velkomið að styðja við samtökin. Tilgangurinn er fyrst og fremst að varðveita sögu skólans og styrkja skólastarfið.
VIÐ LEITUM TIL ÞÍN
Vinir Ísaksskóla munu styðja við allt félagsstarf og -líf utan hins hefðbundna starfs innan veggja skólans. Fyrsta áskorun félagsins liggur fyrir en ákveðið hefur verið að ráðast í gerð heimildarmyndar um Ísak Jónsson og Ísaksskóla sem frumsýnd verður árið 2016, á 90 ára afmælisári skólans. Þetta er dæmi um verkefni sem ekki verður fjármagnað með rekstrarfé skólans. Hugmyndir að fleiri verkefnum hafa komið fram svo sem útgáfa myndabókar, -disks eða -vefs með öllum myndum skólans, kaup á vönduðum hljóðfærum eða tækjum sem ella væri ómögulegt.
Hægt að gerast vinur Ísaksskóla með því taka þátt í söfnunarstarfi samtakanna. Einnig er hægt að hringja í síma 553-2590, senda tölvupóst á vinasamtokin@isaksskoli.is eða með því að mæta til okkar á skrifstofuna til skráningar og greiða frjálst framlag. Öll framlög eru mikils metin. Söfnunarreikningur samtakanna er í vörslu skólans og er 526-26-600269, kt. 600269-4889.
Með því að gerast meðlimur Vina Ísaksskóla stuðlar viðkomandi að því að varðveita sögu skólans og styðja við þau verkefni sem samtökin hafa á prjónunum og stuðla að enn betra skólastarfi. Vinur Ísaksskóla fær að fylgjast með framvindu verkefna og taka þátt í þeim.