Kórar Ísaksskóla, 7, 8 og 9 ára samtals um 60 nemendur skólans, sungu á setningarhátíð Reykjavík Peace Festival / Friðarhátíð 2015 sem fram fór í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun.
Þar voru samankomnir um 250 þátttakendur úr barna- og unglingakórum víðs vegar að af landinu til að syngja fyrir friði og kærleik í heiminum. Lögin sem kórarnir höfðu æft á heimavelli og sungu í Ráðhúsinu voru lagið LOVE eftir John Lennon, og hið alíslenska fallega lag Magnúsar Kjartanssonar TO BE GRATEFUL. Magnús spilaði sjálfur undir á píanó.
Yoko Ono gaf hátíðinni lagið LOVE til raddsetningar fyrir kóra. Flutningur kóranna í Ráðhúsinu var samstilltur og mikil stemning í lofti.
Ísaksskólakórinn var sjálfum sér og skólanum til mikils sóma og nutu börnin góðrar aðstoðar kennara sinna; Maríu Bjarkar, Sóleyjar, Helgu og Bjarkar.
Kórbörnin höfðu undirbúið sig vel heima og sungið ofangreind lög út í eitt að sögn margra foreldra.
Að lokum fengu börnin viðurkenningarskjal þar sem staðfest var að þau hefðu með framtakis sínu, tekið þátt í að vekja athygli á því verðmætasta sem hver manneskja og þjóð hennar eiga; frið, kærleik og þakklæti.
Sjá má myndaalbúm frá viðburðinum hér á síðunni með því að [smella hér]
Einnig má hér sjá upptöku Heiðarskóla af viðburðinum, en hana er að finna á Youtube með því að [smella hér]